Staða hinna minni sjávarbyggða

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 15:44:55 (461)

2003-10-13 15:44:55# 130. lþ. 9.95 fundur 80#B staða hinna minni sjávarbyggða# (umræður utan dagskrár), ÞES
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[15:44]

Þórarinn E. Sveinsson:

Hæstv. forseti. Þegar staða sjávarbyggða á Íslandi er til umræðu er nauðsynlegt að horfa á verkefnið frá öllum hliðum. Margt fleira skiptir máli en núverandi kvótastaða byggðarlagsins. Því þarf að skoða alla þætti samfélagsins og umhverfisins. Byggðirnar breytast, þær munu breytast og þær eiga að breytast. Það er nauðsynlegt að leita allra leiða til að hafa yfirsýn yfir það sem máli skiptir. Byggðir snúast nefnilega um fólk fyrst og fremst. Samgöngur á sjó eru meginástæður þess, hvað sem menn segja. Ísland er nánast eingöngu byggt meðfram ströndinni.

Fyrir örfáum áratugum var styttra frá Vestfjörðum til Reykjavíkur en frá grösugu flatlendi Suðurlands. Hvar byggð verður í framtíðinni á Íslandi snýst fyrst og síðast um það hvernig við skipum samgöngum okkar og samskiptum milli fólks, aðgengi að sameiginlegri þjónustu og hvert öðru. Ég trúi því ekki að á hinu háa Alþingi séu til þingmenn og jafnvel heilir flokkar sem vilja frysta fólk og atvinnulíf í þau spor sem það stendur í í dag. Samfélagið og atvinnulífið tilheyrir því og það verður að fá að þróast. Það verður að fá að halda áfram, breytingar eru nauðsynlegur hluti þess. Því miður eykst fiskurinn í sjónum ekki neitt við það að skipt verði um fiskveiðikerfi eða heimildir færðar á milli byggðarlaga. Það er nauðsynlegt hverri atvinnugrein að sjá sem lengst til framtíðar. Þess vegna þarf að hafa skipulag og framtíðarsýn.

Grunnatvinnuvegir okkar frá síðustu öld, landbúnaður og sjávarútvegur, eru að breytast. Færri og færri starfa við þessar atvinnugreinar, menntunarstig þjóðarinnar eykst með hverju árinu og því breytist atvinnulífið með. Nýsköpun í atvinnulífinu er það sem við þurfum að leggja meiri rækt við. Það þarf að brúa nýsköpunargjána svokölluðu. Því miður er allt of mikið satt í því að þeir sem sitja á peningunum hafa litlar hugmyndir um nýsköpun en þeir sem hafa hugmyndirnar hafa enga peninga. Það er því að mörgu að hyggja þegar staða sjávarbyggða sem og annarra byggða er til umræðu og það er of mikil einföldun að kenna kvótakerfinu einu um.